Hvað merkir orðið bolli

e. Höskuld Þráinsson

Það er nú svolítið gaman að honum Höskuldi og alveg hreint snilld hvernig manninum tekst að gera leiðinlegustu fyrirbæri að hinni ágætustu lesningu. Góður eiginleiki það.

Greinin sem hér er til umfjöllunar er að vísu hreint ekki um leiðinlegt efni þar sem fara pælingar um mismunandi skilning manna á svo einföldum hlut eins og bolla. Það er nefnilega ekki sama bolli og bolli – bara látið ykkur ekki detta það í hug.

Við lestur þessarar greinar kom mér í hug glósuvinna sem ég fer gjarnan í með enskunemendum mínum í efstu bekkjunum en þá þýðum við ensk orð á ensku. Alveg hreint afbragðsskemmtilegt og ótrúlega skemmtilegar umræður oft á tíðum sem koma í kjölfarið. Umræðurnar verða því skemmtilegri eftir því sem orðin eru ,,einfaldari” og algengari. Það að lýsa sól t.d. eða borði, bíl og hesti getur alveg verið afbragðs skemmtilegt svo ekki sé minnst á huglægari hluti – lýsingarorð eins og leiðinlegur og fallegur.

Á miðstigi er einnig nokkur vinna í þessum anda þar sem nemendur eiga að útskýra vel þekkt orð með sínum orðum – líka mjög skemmtilegt.

Það sem lestur greinar Höskuldar skilur fyrst og fremst eftir sig er að ekkert er eins einfalt og það lítur út fyrir að vera (já og að hægt er að gera einfalt mál mjöööööög flókið J)

Merkingarfræði er afskaplega skemmtilegt fyrirbæri og þar blandast jafnvel svolítil mannfræði inní því. Greinin hans Höskuldar opnar einnig huga manns í þá átt að virkilega hugsa um málið – og hvernig við skiljum það. Ef við höldum svolítið lengra með þessar pælingar þá geta þær hjálpað okkur að skilja og nálgast þann vanda að stundum silja nemendur okkar einfaldlega ekki það sem við þá er sagt.

Þeir hafa einfaldlega aðrar hugmyndir um umhverfi sitt, aðra þekkingu og nálgun en sá sem talar og þetta hefur allt sín áhrif.

Ég man alltaf eftir því þegar vinkona mín bað mig um að rétta sér blá peningaveskið sitt. Ég leitaði og leitaði – hún varð pirraðari og pirraðari á silagangnum á mér – manneskjan enda margbúin að segja mér hvað buddan atarna lá. En ég bara fann hana ekki. Hún kom þá skálmandi upp stigann, greip fjólublátt veski af borðinu og sagði mér að hér væri það komið. Mér varð bara allri lokið – fljólublárra veski hafði ég bara aldrei séð – ja amk var það alls ekki blátt……

Svona getur nú skipt máli hvaða merkimiða við setjum á hlutina – og þeir eru bara ekki alltaf þeir sömu og erfitt að dæma um hver sé rangur og hver réttur – a.m.k. geta rökin fyrir merkingunni í upphafi verið góð og gild þó e.t.v. þurfi að merkja upp á nýtt með aukinni þekkingu. Nokkuð sem gott er að hafa í huga fyrir kennarann

Í aðdraganda greinaskrifa

Komið þið sæl – man nokkur eftir mér?

Líklega ekki – stundum veit ég varla sjálf fyrir hvað ég stend, en svona er lífið og tilveran – það er sko alveg áreiðanlegt.

Nú er komið páskafrí en það byrjaði ansi hreint bratt hjá mér.

Systkini mín 9 að tölu voru hjá mér um helgina með maka og eitthvað af börnum við vefsíðugerð á Silfra.is en það er ættarvefurinn okkar. Silfra er nafn á gjá á Þingvöllum – já og á ketti sem ég eitt sinn átti en það heiti á vefnum var valið í lýðræðislegum kosningum í fjölskyldunni. Á föstudagskvöld s.l. var árshátíð skólans og börnin mín léku Fúsa froskagleypi – og það var undursamlegt að fylgjast með þeim – sé ekki eftir mínútu sem fór í það verkefni.

Á mánudag og þriðjudag var ég síðan að útrétta og stússast þessi lifandis býsn því dóttir mín á að fermast á hvítasunnunni og allir vita nú hvernig maí er hjá kennurum svo ég ákvað af minni alkunnu drífandi snilld að gera allt það sem hægt væri að gera núna strax. Servíettur, borðskraut, föt, skór og myndataka er því allt komið í gríðarlega fastar skorður og bara allt í gúddí.

Það er því ekki vonum fyrr að ég setjist niður og skrifi hugleiðingar mínar um greinarnar í Valflokki 1.

Ég er svolítið villuráfandi í lengd og umfangi umfjallananna enda þykja mér sumar greinarnar svoldið þungar á köflum, en ég ætla að gera hvað ég get að ná því fram sem mestu máli skiptir og eins hitt – að hafa ekki pistlana of langa. Best er að vera stuttorð og hnitmiðuð – markmið sem mér þykir eftirsóknarvert – enda áreiðanlega nokkuð fjarlægt minni skaphöfn.

Vona að þið hafið það gott – kveðja í bili – stuttu bili því vonandi kemur alveg hellingur af greinum inn í dag og í fyrramálið – ja það væri það!

Ingveldur