Í aðdraganda greinaskrifa

Komið þið sæl – man nokkur eftir mér?

Líklega ekki – stundum veit ég varla sjálf fyrir hvað ég stend, en svona er lífið og tilveran – það er sko alveg áreiðanlegt.

Nú er komið páskafrí en það byrjaði ansi hreint bratt hjá mér.

Systkini mín 9 að tölu voru hjá mér um helgina með maka og eitthvað af börnum við vefsíðugerð á Silfra.is en það er ættarvefurinn okkar. Silfra er nafn á gjá á Þingvöllum – já og á ketti sem ég eitt sinn átti en það heiti á vefnum var valið í lýðræðislegum kosningum í fjölskyldunni. Á föstudagskvöld s.l. var árshátíð skólans og börnin mín léku Fúsa froskagleypi – og það var undursamlegt að fylgjast með þeim – sé ekki eftir mínútu sem fór í það verkefni.

Á mánudag og þriðjudag var ég síðan að útrétta og stússast þessi lifandis býsn því dóttir mín á að fermast á hvítasunnunni og allir vita nú hvernig maí er hjá kennurum svo ég ákvað af minni alkunnu drífandi snilld að gera allt það sem hægt væri að gera núna strax. Servíettur, borðskraut, föt, skór og myndataka er því allt komið í gríðarlega fastar skorður og bara allt í gúddí.

Það er því ekki vonum fyrr að ég setjist niður og skrifi hugleiðingar mínar um greinarnar í Valflokki 1.

Ég er svolítið villuráfandi í lengd og umfangi umfjallananna enda þykja mér sumar greinarnar svoldið þungar á köflum, en ég ætla að gera hvað ég get að ná því fram sem mestu máli skiptir og eins hitt – að hafa ekki pistlana of langa. Best er að vera stuttorð og hnitmiðuð – markmið sem mér þykir eftirsóknarvert – enda áreiðanlega nokkuð fjarlægt minni skaphöfn.

Vona að þið hafið það gott – kveðja í bili – stuttu bili því vonandi kemur alveg hellingur af greinum inn í dag og í fyrramálið – ja það væri það!

Ingveldur

Færðu inn athugasemd