Um merkingu og hlutverk forliðarins hálf – Fyrri hluti
e. Jón Hilmar Jónsson
Í þessari grein er enn fjallað um merkingarfræði eins og þeirri á undan eftir Höskuld. Hér er umfjöllunarefnið forliðurinn hálfur, merking hans og hlutverk.
Hálfur merkir gjarnan að aðalorðið er uppfyllt að hálfu leyti hvort sem það orð er lýsingarorð eða sagnorð. Það kallast deiliákvörðun – deilt er í merkinguna með tveimur ef svo má segja.
Þetta liggur að sjálfsögðu nokkuð ljóst fyrir þar sem merking orðsins hálfs er næsta kunn á meðal allra – vafasamt að skilgreining þess geti verið jafn umdeilanlega og orðsins bolli hér á undan.
Hins vegar getur merkingin einnig verið þannig að hálfur merkir að eitthvað sé ekki alveg fullkomnað – þá kallast það stigsákvörðun.
Hús getur t.d. verið hálfbrunnið og þá er hlutverk hans deiliákvörðun en ef við segjum að einhver sé hálfsofandi þá sé hlutverkið stigsákvörðun.
Nokkuð hefur merkingin þróast úr því að vera mest deiliákvörðun yfir í það að vera æ meir stigsákvörðun.
Eftir að höfundur greinarinnar hefur gert grein fyrir þessum mun á merkingu forliðarins hálfs fer hann útí merkingarfræðilegar rannsóknir á því hvenær hálf – getur verið með lýsingarorðum og hverjum ekki.
Þessi lestur er allur hinn skemmtilegasti og gaman að sjá hve málið stjórnar því listilega hvað er hægt og hvað ekki – þó enginn munur sé á orðunum annar en merkingalegur – lýsingarorð eru jú alltaf lýsingarorð. Þessar pælingar leiða okkur svo að hinu undursamlega orði – andyrðasamböndum lýsingarorða.
Andyrðiasambönd gætu nú stundum verið kölluð andheiti en þetta er eilítið flóknara en svo – a.m.k. var farið sjóða vel í kollinum á mér og setning eins og ,,…að innbyrðis andstæða andyrða er ekki alltaf af sama tagi,” er vel til þess fallin að iðka gríðarlega hugarleikfimi og taka jafnvel eina eða tvær kollsteypur yfir eigin skilningsleysi.
En allt átti þetta nú eftir að skýrast.
Annars vegar eru andyrðasambönd eins og gamall – ungur, langur – stuttur. Þar sem annað orðið merkir að það er ekki hið síðara.
Við segjum að rúmið sé langt – þar með er vitað að það er ekki stutt en ef við segjum að rúmið sé ekki langt er ekki þar með sagt að það sé stutt.
Sú er hins vegar reyndin í hinum flokknum en orð í honum eru gjarnan óstigbreytanleg eða koma kjánalega út merkingarlega ef þau eru stigbreytt. Hér eru orð eins og dauður – lifandi. Ef við segjum að eitthvað sé ekki lifandi er það alveg klárlega dautt – og þar liggur einmitt munurinn á þessum tveimur andyrðasamböndum.