Ytri aðstæður íslenskrar málþróunar
Það var með svolitlum spenningi sem ég settist niður – mitt í hringiðu handboltans – með Ytri aðstæðurnar því einhvern veginn var ég orðin svo lituð af lestri Tungunnar að manni fannst næstum eins og íslenskan væri eins og eldfjall bara þróaðist á þann hátt sem henni finnst best hæfa.
Vissulega höfðu ytri aðstæður þar sitt að segja – prentverkið, Rask og Fjölnir en engu að síður var íslenskan einhvers konar náttúruafl sem við frekar virkjum en temjum í huga mínum.
Auðvitað er það ekki svo – það er gripið til alls konar ráðsstafana til þess að hamla gegn þessu og hinu. Enn erum við að berjast við þágufallssýkina og á hverju samræmdaprófinu á fætur öðru eru blessuð börnin látin giska á hvort er réttara að segja Helga hlakkar til eða Helgu hlakkar til. Ég segi giska því það eru svo fáir sem segja hið fyrrnefnda og fáir sem falla ekki kylliflatir fyrir svona tálmum. En nóg um að það. Snúum okkur nú að greininni sem var hin ágætasta – nema hvað annars hefði hún trauðla komist á leslistann 😉
Ég hef kennt landnámið í 5. og 6. bekk oftar en ég kæri mig um að muna (finnst ég einhvern veginn föst í kennslu þeirra bekkja en það er ALLt önnur sag), en aldrei hefur mér dottið í hug að nefna til sögunnar í því sambandi að innflytjendurnir hafi ekki allir talað eins. Samt veit ég mæta vel aðmállýskur voru margar og margvíslegar í Noregi á þeim tíma – rétt eins og nú er. Þessi mállýsku hrærigrautur hefur síðan orðið að einum hræring – íslenskunni blessaðri.
Gaman var að lesa um íhaldssemi útflytjendamála – frábær skýring og hljómar mjög sennilega og í samblandi við það að hér voru engir fyrir er landið byggðist hefur áreiðanlega haft mikið að segja. Ég var þó svona svolítið vönkuð þegar ég sá orðið súbstrats enda algjörlega glötuð í öllu svona slettum – er nýbúin að læra hvað nostalgía er, svo ein alkunn sletta sé tekin til ;-).
Rétt eins og þjóðveldið var einstakt stjórnskipulag – og áreiðanlega komið til vegna sameiginlegs vilja manna til þess að búa hér til sæluríki – (ja svona flestra vona ég), þá sammæltust menn einnig um það að tala hér eina tungu. Þó svo að mállýskur norskunnar hafi flotið með í Knörrum þeirra huguðu víkinga (og þrælanna) þá létu þær undan og urðu að einni.
Íslendingar hafa verið mjög hrifnir og stoltir af íslenskunni sinni og hve hún hefur haldist lítt breytt frá því við settumst hér að en Helgi bendir réttilega á að tungumálið sé nú ekki gamalt – og margt geti enn gerst. Þar er ég honum hjartanlega sammála því eins og ég minntist á í skrifum mínum um tunguna þá hef ég nokkrar áhyggjur af áhrifum enskunnar á íslenskuna. Þá er ég ekki að meina bara einhver slanguryrði og slettur – heldur orðaröð og áhrif hennar á málfar og áherslur almennt. En nóg um það að sinni.
Helgi tínir eitt og annað til sem hefur varið íslenskuna fyrir erlendum áhrifum – múrar sem nú eru brostnir – einangrunin og nokkuð sem enn hefur batnað – samgöngur innanlands. Þetta varð til þess að íslenskan hélst hrein og tær en getur í dag orðið til þess að hún þurrkist fljótar út.
Það mætti halda að ég hefði af því þungar áhyggjur að á morgun eða hinn verði hér allt komið fjandans til varðandi móðurmálið en svo er ekki – ég er hins vegar sannfærð um að hætturnar eru fyrir hendi – en varnirnar eru einnig til staðar. Gaman væri að renna yfir grein hverjar þær væru. Alltént væri ekki galið að vita alveg upp á hár hverjar þær eru svo styrkja mætti þær sem best.
Helgi telur upp 25 atriði sem hafa orðið til þess að vernda íslenskuna – öll frekar trúverðug og athygli verð – e.t.v. er spegilmynd þeirra að einhverju leyti verndun hennar nú fyrir áhrifum utan að. – Ég fer þó ekki lengra útí þær pælingar.
Þar sem ég er í einhverju – Verndum íslenskuna – kasti þennan morguninn (adrenlínið flæðir um æðarnar – einungis 2 tímar í leikinn um 7. sætið á HM) langar mig til þess að benda enn á þann mikilvæga hlekk í íslenskukennslunni að láta börnin lesa.
Helgi nefnir það í grein sinni að það að lesa hljóði er ný tegund lestrar hér á Íslandi og ég held það hafi verið á námskeiði hjá Þuríði J. þar sem við fórum svolítið í þann þátt hér um árið. Uppúr því komu mjög skemmtilegar pælingar en eftir stendur að það eru ekki nema e.t.v. um 60 –70 ár síðan fólk fór almennt að lesa í hljóði.
Pabbi minn fæddist 1911 og varð snemma álitinn snarundarlega því hann lá alla daga í bælinu og las. Hann varð síðar mikill bókasafnari og eignaðist 30 000 bækur svo undarlegheitin hafa vísast verið til staðar.
Það er því ekki inngreipt í þjóðarsálina að lesa mikið einn og sér – heldur voru hér húslestrar og fólk las hvert fyrir annað – því auðvitað mátti heldur ekki láta sér verk úr hendi falla. Báðir foreldrar mínir – sem fæddust snemma á síðustu öld minntust þessara lestra og áhrif þeirra á sitt líf. Það er ágætt að hafa í huga að efnið sem var lesið var í fæstum tilfellum neitt léttmeti heldur fornsögur og postillur og hvur veit hvað.
Það er því ekki úr vegi að við kennarar höfum það í huga að ætla börnunum ekki bara að lesa syrpur og léttar bækur – heldur gera til þeirra kröfu – þannig að þau verði að fara að hugsa og spá í hvað þau eru að lesa – giska og pæla í orðanna hljóðan.
Hér læt ég staðar numið í heldur lausaralegri umfjöllun um grein Helga.
Heimild grein eftir Helga Guðmundsson -Um ytri aðstæður íslenzkrar málþróunar- sem birtist í riti Árnastofnunar, Sjötíu ritgerðum 1977