Ytri aðstæður íslenskrar málþróunar

Það var með svolitlum spenningi sem ég settist niður – mitt í hringiðu handboltans – með Ytri aðstæðurnar því einhvern veginn var ég orðin svo lituð af lestri Tungunnar að manni fannst næstum eins og íslenskan væri eins og eldfjall bara þróaðist á þann hátt sem henni finnst best hæfa.

Vissulega höfðu ytri aðstæður þar sitt að segja – prentverkið, Rask og Fjölnir en engu að síður var íslenskan einhvers konar náttúruafl sem við frekar virkjum en temjum í huga mínum.

Auðvitað er það ekki svo – það er gripið til alls konar ráðsstafana til þess að hamla gegn þessu og hinu. Enn erum við að berjast við þágufallssýkina og á hverju samræmdaprófinu á fætur öðru eru blessuð börnin látin giska á hvort er réttara að segja Helga hlakkar til eða Helgu hlakkar til. Ég segi giska því það eru svo fáir sem segja hið fyrrnefnda og fáir sem falla ekki kylliflatir fyrir svona tálmum. En nóg um að það. Snúum okkur nú að greininni sem var hin ágætasta – nema hvað annars hefði hún trauðla komist á leslistann 😉

Ég hef kennt landnámið í 5. og 6. bekk oftar en ég kæri mig um að muna (finnst ég einhvern veginn föst í kennslu þeirra bekkja en það er ALLt önnur sag), en aldrei hefur mér dottið í hug að nefna til sögunnar í því sambandi að innflytjendurnir hafi ekki allir talað eins. Samt veit ég mæta vel aðmállýskur voru margar og margvíslegar í Noregi á þeim tíma – rétt eins og nú er. Þessi mállýsku hrærigrautur hefur síðan orðið að einum hræring – íslenskunni blessaðri.

Gaman var að lesa um íhaldssemi útflytjendamála – frábær skýring og hljómar mjög sennilega og í samblandi við það að hér voru engir fyrir er landið byggðist hefur áreiðanlega haft mikið að segja. Ég var þó svona svolítið vönkuð þegar ég sá orðið súbstrats enda algjörlega glötuð í öllu svona slettum – er nýbúin að læra hvað nostalgía er, svo ein alkunn sletta sé tekin til ;-).

Rétt eins og þjóðveldið var einstakt stjórnskipulag – og áreiðanlega komið til vegna sameiginlegs vilja manna til þess að búa hér til sæluríki – (ja svona flestra vona ég), þá sammæltust menn einnig um það að tala hér eina tungu. Þó svo að mállýskur norskunnar hafi flotið með í Knörrum þeirra huguðu víkinga (og þrælanna) þá létu þær undan og urðu að einni.

Íslendingar hafa verið mjög hrifnir og stoltir af íslenskunni sinni og hve hún hefur haldist lítt breytt frá því við settumst hér að en Helgi bendir réttilega á að tungumálið sé nú ekki gamalt – og margt geti enn gerst. Þar er ég honum hjartanlega sammála því eins og ég minntist á í skrifum mínum um tunguna þá hef ég nokkrar áhyggjur af áhrifum enskunnar á íslenskuna. Þá er ég ekki að meina bara einhver slanguryrði og slettur – heldur orðaröð og áhrif hennar á málfar og áherslur almennt. En nóg um það að sinni.

Helgi tínir eitt og annað til sem hefur varið íslenskuna fyrir erlendum áhrifum – múrar sem nú eru brostnir – einangrunin og nokkuð sem enn hefur batnað – samgöngur innanlands. Þetta varð til þess að íslenskan hélst hrein og tær en getur í dag orðið til þess að hún þurrkist fljótar út.

Það mætti halda að ég hefði af því þungar áhyggjur að á morgun eða hinn verði hér allt komið fjandans til varðandi móðurmálið en svo er ekki – ég er hins vegar sannfærð um að hætturnar eru fyrir hendi – en varnirnar eru einnig til staðar. Gaman væri að renna yfir grein hverjar þær væru. Alltént væri ekki galið að vita alveg upp á hár hverjar þær eru svo styrkja mætti þær sem best.

Helgi telur upp 25 atriði sem hafa orðið til þess að vernda íslenskuna – öll frekar trúverðug og athygli verð – e.t.v. er spegilmynd þeirra að einhverju leyti verndun hennar nú fyrir áhrifum utan að. – Ég fer þó ekki lengra útí þær pælingar.

Þar sem ég er í einhverju – Verndum íslenskuna – kasti þennan morguninn (adrenlínið flæðir um æðarnar – einungis 2 tímar í leikinn um 7. sætið á HM) langar mig til þess að benda enn á þann mikilvæga hlekk í íslenskukennslunni að láta börnin lesa.

Helgi nefnir það í grein sinni að það að lesa hljóði er ný tegund lestrar hér á Íslandi og ég held það hafi verið á námskeiði hjá Þuríði J. þar sem við fórum svolítið í þann þátt hér um árið. Uppúr því komu mjög skemmtilegar pælingar en eftir stendur að það eru ekki nema e.t.v. um 60 –70 ár síðan fólk fór almennt að lesa í hljóði.

Pabbi minn fæddist 1911 og varð snemma álitinn snarundarlega því hann lá alla daga í bælinu og las. Hann varð síðar mikill bókasafnari og eignaðist 30 000 bækur svo undarlegheitin hafa vísast verið til staðar.

Það er því ekki inngreipt í þjóðarsálina að lesa mikið einn og sér – heldur voru hér húslestrar og fólk las hvert fyrir annað – því auðvitað mátti heldur ekki láta sér verk úr hendi falla. Báðir foreldrar mínir – sem fæddust snemma á síðustu öld minntust þessara lestra og áhrif þeirra á sitt líf. Það er ágætt að hafa í huga að efnið sem var lesið var í fæstum tilfellum neitt léttmeti heldur fornsögur og postillur og hvur veit hvað.

Það er því ekki úr vegi að við kennarar höfum það í huga að ætla börnunum ekki bara að lesa syrpur og léttar bækur – heldur gera til þeirra kröfu – þannig að þau verði að fara að hugsa og spá í hvað þau eru að lesa – giska og pæla í orðanna hljóðan.

Hér læt ég staðar numið í heldur lausaralegri umfjöllun um grein Helga.

Heimild grein eftir Helga Guðmundsson -Um ytri aðstæður íslenzkrar málþróunar- sem birtist í riti Árnastofnunar, Sjötíu ritgerðum 1977


Tugan III

Hér er nú kominn þriðji og síðasti hluti umfjöllunar minnar um Tunguna hans Stefáns Karlssonar. Nú verður fjallað um baráttuna við að rita hið íslenska mál og samhæfa stafsetningu okkar ástkæra ylhýra…

Þeir sem hafa kynnt sér sögu íslenskunnar og viðureign manna við hana vita að Latína hefur oftar en ekki komið þar við sögu – en Latína og íslenska eru sem kunnugt er um margt æði ólík. Íslensk málfræði hefur þó í aldanna rás verð beygð undir lögmál Latínunnar – oft með góðum árangri en einnig með vanköntum sem erfitt er að færa til betri vegar. Það er margt nýtt að gerast í þessum málum nú en fyrir 800 árum höfðu menn ekki margt annað í höndunum en Latínuna til þess að laga íslenskuna og ritun hennar og kortlagningu að.

Hinn ókunnu höfundur Fyrstu málfræðiritgerðarinnar réðst ekki á garðinn þar sem hann varlægstur heldur reyndi að koma skikki á íslenska stafsetningu. Það virðist hafa gengið svona og svona því ekki finnast heimildir þar sem farið er að ráðum hans.

Í áranna og aldanna rás varð stafsetning allaveganna og þróaðist m.a. vegna áhrifa frá norskunni. Drepsóttir höfðu sín áhrif og síðast en ekki síst Lúterskan. Koma prentverksins gerði það síðan deginum ljósara að ekki dygði að skrifa bara einhvern veginn – eða því sem næst heldur yrði til samræmdra ráða að grípa.

1762 skrifaði Eggert Ólafsson um stafsetningu og það hefti hans dreifðist víða og var nýtt við prentun bóka og enn styrktist stafsetningin með frekari úrvinnslu ýmissa félaga.

Rask gaf síðan út stafsetningahefti 1830 og þá má segja að verulega hafi til tíðinda dregið í íslensku samfélagi í stafsetningarmálum. Fjölnismenn sem höfðu mikil áhrif í gegnum sitt víðlesna tímarit komu með sínar tillögur og sitt sýndist hverjum.

Helstu deilurnar voru um hvort og hversu nærri hinu talaða máli stafsetningin ætti að fara og svo hins vegar um je eða é og blessaða zetuna. Hið merkilega við þetta allt saman er að það er ekki fyrr en 1918 að samræmd stafsetning er gefin út og þá hefur mikið vatn til sjávar runnið frá því hinn ókunnu höfundur málfræðiritgerðarinnar sat og kom sínu stafrófi saman.

Undirrituð upplifði það á sinni skólagöngu að sífellt var verið að breyta stafsetningu – sérstaklega heiti á bæjum og ég vissi aldrei almennilega hvort að hún Gunna ætti heima á Stærri – Bæ eða stærri –Bæ eða bara Stærri – bæ – og það er varla að ég viti það enn. Eitthvað fleira hringl var á hlutunum og rétt eins og stærðfræðinni – þar sem 2+2 héldust þó ætíð fjórir, lét maður þessar breytingar yfir sig ganga en varla hafa þær verið til sérstakra bóta.

Að lokum þetta: Grein Stefáns þykir mér sérlega merkileg samantekt á því helsta sem gengið hefur á í áranna rás hjá blessaðri tungunni okkar. Greinin verður geymd á góðum stað þar sem gott verður að grípa til hennar þegar þróun máls, ritaðs og talaðs kemur mér í hug.

Bestu þakkir fyrir Þórunn Blöndal að kynna hana fyrir mér

Tungan II

Erlend áhrif

Það var ekki langt liðið á skólagöngu undirritaðrar þegar það einhvern síaðist inn að dönskuslettur væru hinar verstu slettur og vísast hef ég drukkið það inn með móðurmjólkinni einnig – báðir foreldrar mínir firna góðir íslenskumenn.

Það var svo síðar að manni lærðist að það voru menntamenn og ,,heldra” fólk sem kunni hve síst íslenskuna hér fyrir um tveimur til fjórum árhundruðum eða svo. Þetta kemur Stefán inn á í greininni og fjallar nokkuð um áhrif dönskunnar á íslenskuna og ástæður þess að danskan var svo stór hluti af íslenskunn – ef svo má segja á tímabili.

Það var síðan með tilkomu málhreinsunarmanna, íslenskrar útgáfustarfssemi Hins íslenska biblíufélags að kirkjunnar menn fóru að sjá íslenskan staf á bók í ríkari mæli en áður og kraftur alþýðunnar náði að sporna við dönskunni. Það var strax á 18. öld sem málhreinsunarmenn fóru að láta til sín taka á landi hér þó hægt hafi gengið í fyrstu og Rask gamla þótti 1813 sem hér myndi enginn maður skilja íslenskuna um aldamótin 1900 – hvað þá 2000.

Enn erum við þó að ræða saman á tungu sem er býsna lík þeirri er var notuð hér fyrrum og það getum við vissulega þakkað þeirri málhreinsunarstefnu sem svo snemma var tekin upp. Það voru síðan Fjölnismenn sem héldu uppi heiðri íslenskunnar og kappkostuðu að vanda mál sitt og skrif sem best þeir gátu.

2003 erum við enn að huga að málhreinsun – og nú er það enskan sem ætlar hér allt um koll að keyra. Ég hef reynslu af því sjálf þar sem ég hef unnið við fréttaflutning á internetinu í allnokkurn tíma þar sem bæði er verið að þýða beint ummæli manna og allar heimildir á ensku að það er auðveldur pyttur að falla í að láta málfar vera enskuskotið. Sérstaklega er fólki hætt við að rugla setningaskipan og ýmsir frasar sem í enskunni eru færast yfir í talmálið okkar. Þetta má víða sjá þar sem vinna þarf hratt og heimildirnar eru enskar enda þarf maður að hafa nokkuð fyrir því að raða orðunum upp á nýtt í íslenskunni þegar heimildin er ensk.

E.t.v. er þó hættan af enskunni miklu mun meiri en sú sem okkur stóð af dönskunni enda hljómar enska daginn út og daginn inn í eyrum okkar allra og börnin hafa hana fyrir framan augu sín á flöktandi tölvuskjám ótölulegan fjölda klukkustunda á dag. Það er því e.t.v. ekki alveg útí hött að við þurfum að athuga okkur gang – ekki með því að hafa orðaskilning og lesskilning á samræmdum prófum svo svínslegan að nánast forspárgáfu þurfi til að svara rétt heldur þannig að börnin okkar heyri íslenskuna talaða. Foreldrar tali við börnin sín og leyfi þeim að hitta ömmu og afa við og við – og þá ekki síður að þau lesi bækur og læri að tileinka sér málið á þann hátt.

Frá handboltaverk í handboltadoða

…. og ekki orð um það meir

Áfram Ísland

(við erum jú eina norræna þjóðin í topp 8 – enn eigum við möguleika á olympíusæti!)

Inga