Íslenskufræðingar

Höskuldur Þráinsson hefur verið afkastamikill í skrifum sínum undanfarin ár og kennslubækur hans að ógleymdri handbókinni hans hafa nokkuð komið við sögu í minni kennslu og námi. Ég þekki nokkuð vel til skoðana hans og finnst þær flestar afskaplega gáfulegar.

Ég er hins vegar eins og ég sagði fyrr í bloggi ekki sérstaklega mikil reglumanneskja og verða alltaf pínu rugluð þegar langar útskýringar koma á reglum íslenskunnar. Tala nú ekki um þegar margar skammstafanir koma saman í einni setningu 😉 – reyndar nokkuð sem hjálpar mér að skilja hvernig blessuðum börnunum líður á köflum í þeirra námi.

En hvað um það – Höskuldur fjallar um SEM í grein sinni – Tilvísunarfornöfn og ég er mikil áhugamanneskja um sem. Ég flýg því yfir lesmálið og röksemdafærslur Höskuldar sem flestar eru mér kunnuglegar úr fyrra grúski mínu.

Þegar íslenskir málfræðingar fóru af stað að kortleggja íslenskuna var eðlilegt að þeir styddust við það tungumál sem í mestum metum á akademískum vettvangi – og það tungumál sem þeir höfðu lært – Latínuna. Það hefur síðan komið á daginn að þessi aðferð er ekkert sérstaklega sanngjörn gagnvart íslenskunni og margt í ,,gömlu” málfærðinni sem passar ekkert sérlega vel við og verkar undarlega á menn nú til dags.

Þegar nemendur hefja sína orðflokkagreiningu – strax í 4. bekk og halda svo áfram því –stagli-liggur mér við að segja, allt fram í 10. bekk, þá beita kennarar og námsefnishöfundar gjarnan þeirri aðferð að kenna nemendum merkingarlegan mun á orðflokkunum. Mér sjálfri fannst það ágætt að læra þá svoleiðis en fannst þó undantekningarnar, slaufurnar og ,,en-in” fullmörg á köflum. Enn er ég þeirrar skoðunar. Tökum t.d. bara einfalda skilgreiningu á nafnorðum – þau eru heiti á einhverju – og þá halda börnin náttúrulega að hér séu á ferðinni sérnöfn og langar útskýringar hefjast á því að ……

Ekki eru sagnorðin betri – þau segja frá því hvað einhver er eða var að gera, eða hvernig ástand einhvers er– og í flokkuninni fer óðum að slæðast með lýsingarorð og allt er komið í vitleysu fyrr en varði. Maður þarf ekki að vera búinn að kenna lengi til þess að sannreyna þetta. Merkingarleg atriði hjálpa þó til á tíðum við að læra blessaða orðflokkagreininguna og skipta vissulega máli.

Til er miklu skynsamlegri leið og að henni víkur Höskuldur í sinni grein. Hver og einn Íslendingur er sérfræðingur í málinu og notar sitt mál sem slíkur. Nemendur kunna heilmikið í íslensku – og ég bendi þeim gjarnan á að þeir kunni þetta allt saman – þeir þurfi bara að ganga með merkibyssu á allt heila klabbið og merkja það.

Við getum fundið orðflokka með því að skoða stöðu þeirra í setningu og myndanfræðileg atriði og orðmyndun.

Það eru einmitt þessi atriði sem hjálpa nemendum hve mest að nálgast þá vitneskju sem býr innra með þeim. Þ.e. nafnorð bæta við sig greini – lýsingarorð bæta við sig endingum og stigbreytast og sagnorðin eru á ákveðnum stað – oftast ekki fjarri nafnorðinu eða persónufornafninu – sem ég vel að merkja kenni svona jöfnum höndum þar sem þau fara snemma að þurfa að þekkja þau í sínu enskunámi.

Rétt eins og Höskuldur bendir á í sinni grein hafa merkingarleg einkenni misst vægi sitt frá því sem áður var en engu að síður eru þau á tíðum eitt af því sem orð í ákveðnum orðflokki eiga sameiginlegt og heiti þeirra eru venjulega dregin af því.

Enn er ég of langorð – en þessir þættir sem að ofan eru nefndir hafa skipt mig miklu máli í kennslu og áreiðanlega börnin í námi,

meira síðar um grein Höskuldar – Tilvísunarfornöfn?

Færðu inn athugasemd