Tilvísunarfornöfn? II/II

Höskuldur fer ítarlega í gerð tilvísunarsetninga í íslensku og fleiri málum og þar er niðurstaða hans sú – eins og annarra á undan honum – að tilvísunarsetningar koma á eftir því orði sem tilvísunarsetningin vísar til – og að tilvísunarsetningar séu tengdar með fornöfnum eða óbeygjanlegum smáorðum (bls. 65). Hann rekur síðan og gerir grein fyrir orðum sem tengja saman tilvísunarsetningar í íslensku og fer síðan að fjalla um vandræðaorðin sem og er.

Líkt og í öðrum tungumálum sem eiga sér sömu orðin, hafa menn löngum sagt þau vera tilvísunarfornöfn og kosið að líta fram hjá þeirri hegðan þeirra að beygjast ekki. Sumir hafa reyndar kosið að kalla sem og er tilvísunarorð og sloppið þannig við þann óþægilega sannleika að orðin haggast ekki þó reynt sé að beygja þau.

Stundum hefur verið reynt að kalla þau annað hvort samtengingu eða fornöfn en margir hallast að því að betra sé að láta orð tilheyra einum flokki ein tveimur. Þó svo að málvísindamenn um víða veröld hallist að því að flokka sambærileg orð í öðrum tungumálum – smáorð hjálpar það lítt enda margir lækir sem renna í það fljót.

Höskuldur færir fyrir því sannfærandi rök að sem sé í raun tilvísunartenging en ekki tilvísunarfornafn.

1. Þau beygjast ekki (slíkt á þó við um nokkur fallorð sem þó eiga heima í þeim flokki)

2. Þau geta ekki staðið í forsetningarliðum eins og fallorð

3. Sem og er geta ekki verið hiðstæð – þ.e. þau geta ekki staðið með fallorðum – eins og önnur fallorð geta

4. Þau standa fremst í setningum og líklegt er að samanburðartengingin sem hafi smám saman verið farið að nota sem tilvísunartengingu sem er mun eðlilegra en hún hafi verið notuð sem tilvísunarfornafn.

5. Sem tekur með sér –að- líkt og aðrar tengingar en fornöfn gera ekki

6. Sem og er yrðu að geta vísað til næstum hvers sem er ef nota ætti merkilegalega skilgreiningu en það gera fornöfn ekki – þau vísa í eitthvað ákveðið orð.

Grein Höskuldar er svolítið eins og stærðfræðiformúla aflestrar. Hún er rökföst – ef þetta þá þetta og varla að finnist glufur í röksemdafærslunni – enda ég sammála manninum, hvers virði það nú er ;-).

Engu að síður hefur Höskuldur skemmtilegan stíl í þessu rakaregni sínu og því fannst mér gaman að lesa skrifin rétt eins og mér finnast kennslubækur hans góðar aflestrar.

Ég er hins vegar fegin að ég er ekki íslenskufræðingur að atvinnu, mikið held ég maður þurfi að vera gáfaður 😉

Bestu kveðjur og beint í næstu grein,

Ingveldur

P.s: Það er reyndar ekki nein tilviljun að ég las greinina yfir aftur nú í morgunsárið og skrifaði punktana þá – ég er held ég komin á þann aldur að svona formúlulestur leggist best í mig þá!

Færðu inn athugasemd