Þágufallið einn góðan ganginn
Það var með nokkurri mæðu sem ég hóf lestur greinarinnar hennar Ástu Svavarsdóttur um þágufallssýkina. Víða hefur verið tæpt á þeirri sótt í skrifum mínum og daglega stend ég frammi fyrir henni og veit svo sem ekki alveg hvort ég eigi að há þessa baráttu penselínslaus manneskjan.
Ekki minnkaði mæðan og þyngslin er ég uppgötvaði að gjarnan vantaði 2 bls. hér og þar, innan í greinina sem var ekki til þess að auðvelda fyrirframþreyttum huga mínum að renna í gegnum skrifin. Kannski hafði vikan í skólanum bara haft þessi áhrif, mörg vandamál sem koma upp og sigrarnir oft á tíðum smáir og fáséðir.
Eftir að hafa rennt í gegnum greinina sem mér fannst satt að segja ekki sérlega skemmtilegt (reyndar skammaði ég mig nokkrum sinnum í huganum fyrir að ætlast til þess að grein um þágufallssýki sé skemmtilegt – og hugsaði til þess sem ég segi nokkrum sinnum á ári við blessuð börnin að nám sé ekki skemmtunin ein) eru nokkur atriði sem standa uppúr:
1. Svo virðist sem þágufallíleitni manna sé hið eðlilegasta mál og e.t.v. ekkert til þess að amast við heldur eðlileg þróun máls.
2. Þágufallsíleitnin er ekki eins algeng og maður skyldi ætla og oftar en ekki tilkomin vegna mjög skynsamlegrar ómeðvitaðrar málvitundar.
3. Þágufallsíleitnin færir okkur heim sanninn um það að málið er bráðlifandi og sífellt að þróast.
4. Líklega er vonlaust að berjast á móti henni þar sem þær sagnir sem harðast er hamrað á að séu ópersónulegar eru þær sem algengast er að nota ,,vitlaust” – hver þekkir ekki – LANGA – HLAKKA?
Og nú sit ég hér og velti því fyrir mér hvort ég eigi að segja syni mínum einn góðan ganginn að hann hlakkar til þess og hins eða hann langi til þess að verða þetta eða hitt.
Niðurstöðu er að vænta í málinu en hún liggur ekki fyrir.
Ég veit heldur ekki hvort ég tjái mig meira um þessa grein – ég er í svolítilli fýlu út í hana – bæði er hún æði fræðileg og miklar vísanir í prófin sem lögð voru fyrir og því ekki sérlega vel til þess fallin að vekja með mér innblástur. Eins skemmir fyrir að hafa ekki nema svona eins og 80% af henni með höndum.
En greinin er góð í bland við annað – og verður áreiðanlega til þess að auka mér vit og víðsýni.
Kveðja úr hálkunni,