Tungan II

Erlend áhrif

Það var ekki langt liðið á skólagöngu undirritaðrar þegar það einhvern síaðist inn að dönskuslettur væru hinar verstu slettur og vísast hef ég drukkið það inn með móðurmjólkinni einnig – báðir foreldrar mínir firna góðir íslenskumenn.

Það var svo síðar að manni lærðist að það voru menntamenn og ,,heldra” fólk sem kunni hve síst íslenskuna hér fyrir um tveimur til fjórum árhundruðum eða svo. Þetta kemur Stefán inn á í greininni og fjallar nokkuð um áhrif dönskunnar á íslenskuna og ástæður þess að danskan var svo stór hluti af íslenskunn – ef svo má segja á tímabili.

Það var síðan með tilkomu málhreinsunarmanna, íslenskrar útgáfustarfssemi Hins íslenska biblíufélags að kirkjunnar menn fóru að sjá íslenskan staf á bók í ríkari mæli en áður og kraftur alþýðunnar náði að sporna við dönskunni. Það var strax á 18. öld sem málhreinsunarmenn fóru að láta til sín taka á landi hér þó hægt hafi gengið í fyrstu og Rask gamla þótti 1813 sem hér myndi enginn maður skilja íslenskuna um aldamótin 1900 – hvað þá 2000.

Enn erum við þó að ræða saman á tungu sem er býsna lík þeirri er var notuð hér fyrrum og það getum við vissulega þakkað þeirri málhreinsunarstefnu sem svo snemma var tekin upp. Það voru síðan Fjölnismenn sem héldu uppi heiðri íslenskunnar og kappkostuðu að vanda mál sitt og skrif sem best þeir gátu.

2003 erum við enn að huga að málhreinsun – og nú er það enskan sem ætlar hér allt um koll að keyra. Ég hef reynslu af því sjálf þar sem ég hef unnið við fréttaflutning á internetinu í allnokkurn tíma þar sem bæði er verið að þýða beint ummæli manna og allar heimildir á ensku að það er auðveldur pyttur að falla í að láta málfar vera enskuskotið. Sérstaklega er fólki hætt við að rugla setningaskipan og ýmsir frasar sem í enskunni eru færast yfir í talmálið okkar. Þetta má víða sjá þar sem vinna þarf hratt og heimildirnar eru enskar enda þarf maður að hafa nokkuð fyrir því að raða orðunum upp á nýtt í íslenskunni þegar heimildin er ensk.

E.t.v. er þó hættan af enskunni miklu mun meiri en sú sem okkur stóð af dönskunni enda hljómar enska daginn út og daginn inn í eyrum okkar allra og börnin hafa hana fyrir framan augu sín á flöktandi tölvuskjám ótölulegan fjölda klukkustunda á dag. Það er því e.t.v. ekki alveg útí hött að við þurfum að athuga okkur gang – ekki með því að hafa orðaskilning og lesskilning á samræmdum prófum svo svínslegan að nánast forspárgáfu þurfi til að svara rétt heldur þannig að börnin okkar heyri íslenskuna talaða. Foreldrar tali við börnin sín og leyfi þeim að hitta ömmu og afa við og við – og þá ekki síður að þau lesi bækur og læri að tileinka sér málið á þann hátt.

Færðu inn athugasemd