Tugan III

Hér er nú kominn þriðji og síðasti hluti umfjöllunar minnar um Tunguna hans Stefáns Karlssonar. Nú verður fjallað um baráttuna við að rita hið íslenska mál og samhæfa stafsetningu okkar ástkæra ylhýra…

Þeir sem hafa kynnt sér sögu íslenskunnar og viðureign manna við hana vita að Latína hefur oftar en ekki komið þar við sögu – en Latína og íslenska eru sem kunnugt er um margt æði ólík. Íslensk málfræði hefur þó í aldanna rás verð beygð undir lögmál Latínunnar – oft með góðum árangri en einnig með vanköntum sem erfitt er að færa til betri vegar. Það er margt nýtt að gerast í þessum málum nú en fyrir 800 árum höfðu menn ekki margt annað í höndunum en Latínuna til þess að laga íslenskuna og ritun hennar og kortlagningu að.

Hinn ókunnu höfundur Fyrstu málfræðiritgerðarinnar réðst ekki á garðinn þar sem hann varlægstur heldur reyndi að koma skikki á íslenska stafsetningu. Það virðist hafa gengið svona og svona því ekki finnast heimildir þar sem farið er að ráðum hans.

Í áranna og aldanna rás varð stafsetning allaveganna og þróaðist m.a. vegna áhrifa frá norskunni. Drepsóttir höfðu sín áhrif og síðast en ekki síst Lúterskan. Koma prentverksins gerði það síðan deginum ljósara að ekki dygði að skrifa bara einhvern veginn – eða því sem næst heldur yrði til samræmdra ráða að grípa.

1762 skrifaði Eggert Ólafsson um stafsetningu og það hefti hans dreifðist víða og var nýtt við prentun bóka og enn styrktist stafsetningin með frekari úrvinnslu ýmissa félaga.

Rask gaf síðan út stafsetningahefti 1830 og þá má segja að verulega hafi til tíðinda dregið í íslensku samfélagi í stafsetningarmálum. Fjölnismenn sem höfðu mikil áhrif í gegnum sitt víðlesna tímarit komu með sínar tillögur og sitt sýndist hverjum.

Helstu deilurnar voru um hvort og hversu nærri hinu talaða máli stafsetningin ætti að fara og svo hins vegar um je eða é og blessaða zetuna. Hið merkilega við þetta allt saman er að það er ekki fyrr en 1918 að samræmd stafsetning er gefin út og þá hefur mikið vatn til sjávar runnið frá því hinn ókunnu höfundur málfræðiritgerðarinnar sat og kom sínu stafrófi saman.

Undirrituð upplifði það á sinni skólagöngu að sífellt var verið að breyta stafsetningu – sérstaklega heiti á bæjum og ég vissi aldrei almennilega hvort að hún Gunna ætti heima á Stærri – Bæ eða stærri –Bæ eða bara Stærri – bæ – og það er varla að ég viti það enn. Eitthvað fleira hringl var á hlutunum og rétt eins og stærðfræðinni – þar sem 2+2 héldust þó ætíð fjórir, lét maður þessar breytingar yfir sig ganga en varla hafa þær verið til sérstakra bóta.

Að lokum þetta: Grein Stefáns þykir mér sérlega merkileg samantekt á því helsta sem gengið hefur á í áranna rás hjá blessaðri tungunni okkar. Greinin verður geymd á góðum stað þar sem gott verður að grípa til hennar þegar þróun máls, ritaðs og talaðs kemur mér í hug.

Bestu þakkir fyrir Þórunn Blöndal að kynna hana fyrir mér

Færðu inn athugasemd