Forleikur að námskeiði
Ég er enn að naga mig í handarbökin fyrir að hafa komið of seint í tímann á fimmtudaginn – finnst eins og þar hljóti að hafa verið sagt eitthvað gríðarlega merkilegt – en ég hef svo sem áður misst af staðbundnum tímum og farnast þokkalega. Ég hef þó á tilfinningunni að samferðafólk mitt á þessu námskeiði sé mun sjóaðara en ég í þeim verkefnum sem framundan eru – enda er ég pólitískt viðrini í þessum Kennaraháskóla og hef farið þvers og kruss í gegnum árin. Það er ágætt að vita af reyndu fólki allt um kring sem grípur mann þegar maður fellur í hyldýpi kunnuáttuleysisins 😉
Ég fór inn á íslenskuvefinn og sá þá slóðir annarra nemenda á þessu námskeiði. Þar sá ég að fólk var farið að gíra sig upp í lestur á einhverri ógnarlangri tungu, en ég verð að bíða með hann þar sem ég hef ekki fengið lesefnið í hendur.
Vonandi man ég eftir að hringja á morgun og panta bunkann, en mánudagar eru aldeilis skelfilegir í skólanum, auk þess sem ég er með próf – þau næstsíðustu af þeim 12 sem ég geri í þetta sinn. En þetta á nú ekki að vera neitt dagbókar bull – er að hugsa um að koma mér upp öðru slíku þar sem ritþörf minni verður vart svalað á þessu vormisseri – þ.e. í frjálsri ritun þar sem ég hef ekki lengur umsjón með formula.is eins og undanfarin ár. Hvað sem síðar verður,
góðar kveðjur til ykkar allra og vonandi á þetta eftir að ganga vel hjá okkur öllum.