Handboltaverkur

Ég var að lesa dagbókina hennar Þórunnar – náttúrlega snarhætti að lesa nýjasta póstinn – vill ekki svindla varðandi Tunguna. Þar sá ég að hún var að kvarta undan handboltakastljósi – en ég bara get ekki fengið nóg af handbolta – nú sit ég og lýk við Tunguna og hugsa um Dag og Ólaf og hvað þeir séu sætir og góðir og að þeir verði nú að gera sitt besta…. Já svo er nú hann Sigfús sem ekki hefur alveg verið að finna sig og hornamennirnir voru jú ekkert sérstakir í gær – og….

Já sem sagt – á heldur erfitt með að einbeita mér vegna handboltaveirunnar – vildi helst horfa á eitthvað handboltatengt alla daga núna – horfði á Júggana tapa fyrir Þjóðverjum í dag – eftir að hafa verið með unninn leik – sigh…. Það virðist ekki vera neinn leikur að vinna þessa Þjóðverja.

En þetta var nú sem sagt bara smá púst – um handbota – kastljós – eða eitthvað. Ég ætla bara rétt að vona að við vinnum Spán – annars bara………

Hva það er ekkert annars….

afram með Tunguna,

og áfram Ísland

kveðja Ingveldur

Tungan I

Það var með nokkurri eftirvæntingu sem ég opnaði umslagið frá Bóksölu KHÍ þar sem leyndist lesefnispakki þessa námsskeiðs – sá fyrri. Nokkuð var umslagið að vöxtum og ég þóttist þess fullviss að þar vægi Tungan þungt þar sem ég hafði haft af því nokkrar spurnir að höfundur hennar Stefán Karlsson hefði frá mörgu að segja.

Málsaga er e.t.v sú grein íslenskunnar sem hefur komið hve ,,heitast” inn hjá mér hin síðari ár. Alla tíð hefur mér líkað íslenskunám vel og haft á þau sæmileg tök en einhvern veginn hafði málsaga algjörlega framhjá mér farið fyrr en ég fór í afbragð gott námsskeið í KHÍ hjá Önnu Þráins.

Ein af afleiðingum þess námsskeiðs var að ég þvældist inn á vefleiðangra ýmis konar og vefsíður um málsögu og m.a. vefleiðangur frá MA Þar varð ég áþreifanlega vör við hve náskyld íslenskan er enskunni nú eða öfugt, alltént eru heiti ýmissa líkamshluta sem birt eru á Hwaet mun líkari okkar mæli en þeirra engilsaxnesku.

Þetta kemur ekki á óvart þar sem rétt eins og Stefán nefnir í upphafi sinnar greinar (bls. 22) þá sagði höfundur fyrstu málfræði ritgerðarinnar Íslendinga og Englendinga tala sama tungumálið.

Þessi málsögulega ,,uppgötvin” mín hafði það svo aftur í för með sér að ég fór að nota það æ meira í minni enskukennslu að benda nemendum á hið sameiginlega í tungumálum okkur en hitt sem skilur þau að. Nemendum finnst reyndar alveg bráðskemmtilegt að velta málsögu fyrir sér og allt niður í 5. bekk hef ég verið að sýna þeim þessar síður og þeir haft gaman að.

Stefán rekur ítarlega í áframhaldinu breytingar á sérhljóðum – einu sinni var jú virkilega ástæða til þess að rita y – í orðum (þó svo að mörgum grunnskólanemandanum finnist það afskaplega fjarstæðukennt), svona ef menn komu sér almennt saman um að eitthvað væri til sem héti stafsetning en höfundur fyrstu málfræðiritgerðarinnar sá nú til þess að við hefðum a.m.k. opinberlega stafróf sem við gætum sammælst um.

Það var svo á 15. – 17. öld sem sérhljóðakerfið breytist mikið en áður hafði það þó gengið í gegnum allmiklar breytingarþ Ekki er nóg með að sérhljóðarnir vísa til mislangra hljóða heldur fá þeir önnur hljóðgildi (bls. 24). Þar með verður að raunveruleika hljóðdvalarbreytingin en hún gjörbreytir tali Íslendinga og áherslan í tungumálinu verðu önnur en áður var.

Hér læt ég staðar numið að sinni í umfjöllun minni um Tunguna en held ótrauð áfram innan skamms,

handboltakveðjur Ingveldur

Forleikur að námskeiði

Ég er enn að naga mig í handarbökin fyrir að hafa komið of seint í tímann á fimmtudaginn – finnst eins og þar hljóti að hafa verið sagt eitthvað gríðarlega merkilegt – en ég hef svo sem áður misst af staðbundnum tímum og farnast þokkalega. Ég hef þó á tilfinningunni að samferðafólk mitt á þessu námskeiði sé mun sjóaðara en ég í þeim verkefnum sem framundan eru – enda er ég pólitískt viðrini í þessum Kennaraháskóla og hef farið þvers og kruss í gegnum árin. Það er ágætt að vita af reyndu fólki allt um kring sem grípur mann þegar maður fellur í hyldýpi kunnuáttuleysisins 😉

Ég fór inn á íslenskuvefinn og sá þá slóðir annarra nemenda á þessu námskeiði. Þar sá ég að fólk var farið að gíra sig upp í lestur á einhverri ógnarlangri tungu, en ég verð að bíða með hann þar sem ég hef ekki fengið lesefnið í hendur.

Vonandi man ég eftir að hringja á morgun og panta bunkann, en mánudagar eru aldeilis skelfilegir í skólanum, auk þess sem ég er með próf – þau næstsíðustu af þeim 12 sem ég geri í þetta sinn. En þetta á nú ekki að vera neitt dagbókar bull – er að hugsa um að koma mér upp öðru slíku þar sem ritþörf minni verður vart svalað á þessu vormisseri – þ.e. í frjálsri ritun þar sem ég hef ekki lengur umsjón með formula.is eins og undanfarin ár. Hvað sem síðar verður,

góðar kveðjur til ykkar allra og vonandi á þetta eftir að ganga vel hjá okkur öllum.